Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 630/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 630/2021

Mánudaginn 13. desember 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. nóvember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B í formi bókunar á fundi nefndarinnar 16. nóvember 2021, varðandi umgengni, D og F, við kæranda, sem er kynmóðir barnanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, D, er X ára gömul og drengurinn E, er X ára gamall. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Mál barnanna var lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B 16. nóvember 2021 þar sem kærandi hafði óskað eftir því að umgengni hennar við börnin yrði aukin frá því sem áður hafði verið ákveðið. Fyrir nefndinni lá greinargerð starfsmanna barnaverndar þar sem fram hafi komið tillaga starfsmanna um að umgengnin skyldi vera óbreytt frá því sem verið hefði, þ.e. einu sinni á ári, undir eftirliti í þrjá tíma í senn.

Í kæru er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umgengni kæranda við börnin verði aukin. Kærandi byggir kröfu sína á því að ákvörðun hafi verið tekin án þess að skoðun færi fram á breyttum aðstæðum og stöðu kæranda. Hvorki hafi verið tekið tillit til getu hennar til að umgangast börn né könnuð geta hennar til þess að umgangast börnin. Fram kemur í kæru að kærandi hafi unnið mikið í sínum málum og bætt sig til muna. Kærandi sé með forsjá yngstu dóttur sinnar og því sé ekki álitamál hvort hún sé hæf móðir. Umgengni hafi gengið vel og hafi kærandi átt jákvæð samskipti við börnin. Fósturforeldrar hafi lýst hegðunarbreytingum stúlkunnar í kjölfar síðustu umgengni en kærandi telur að þær megi rekja til annarra breytinga hjá stúlkunni. Kærandi telur að það sé hagur barnanna að hafa reglulega samskipti við móður sína, sérstaklega þar sem barn sé viðkvæmt fyrir breytingum. Sé móðir metin hæf og umgengni sé regluleg myndist meira traust, tengsl og rútína sem hljóti að vera barninu fyrir bestu. Að þekkja uppruna sinn sé mjög mikilvægt fyrir alla aðila og þá einnig fyrir þau börn sem hér um ræðir. 

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 24. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B vegna málsins, auk gagna málsins. Greinargerð barnaverndarnefndarinnar ásamt gögnum málsins barst með bréfi, dags. 26. nóvember 2021.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að kærandi hafi farið fram á aukna umgengni við börn sín og hafi kæran verið tekin til umfjöllunar á meðferðarfundi barnaverndarteymis þann 1. október 2021. Var það mat fundarmanna að með hliðsjón af hagsmunum barnanna og vilja þeirra væri ekki unnt að fallast á kröfu móður. Þar sem meðferðarfundurinn hafi í raun verið samráðs- og vinnufundur starfsmanna barnaverndar hafi ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir um kröfur kæranda og því hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd þann 16. nóvember 2021 þar sem samþykkt hafi verið svohljóðandi bókun:

„Með hliðsjón af fyrirliggjandi greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndar B og eindregins vilja barnanna E og D, er það mat nefndarinnar að það sé hag barnanna fyrir bestu að umgengni þeirra við kynmóður sína, A, verði með sama hætti og verið hefur, þ.e. einu sinni á ári í þrjár klst. í senn undir eftirliti. Málið er tekið til úrskurðar.“

Úrskurðarnefndin aflaði ekki frekari gagna í málinu.   

II.  Niðurstaða

D er X ára gömul og E er X ára gamall. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir barnanna. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B var ákveðið að kynmóðir hefði óbreytta umgengni við börnin frá því sem áður hafði verið ákveðið, þ.e. einu sinni á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti.

Samkvæmt 5. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) geta þeir sem umgengni eiga að rækja óskað breytinga á ákvæðum samnings um umgengnisrétt. Náist ekki samkomulag um slíka breytingu tekur barnaverndarnefnd ákvörðun með úrskurði.

Í máli þessu liggur fyrir að Barnaverndarnefnd B tók ákvörðun um umgengni kynmóður við börnin með bókun þann 16. nóvember 2021. Verður ráðið af gögnum málsins að barnaverndarnefndin hafi ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um umgengni kynmóður við börnin eins og áskilið er í skýru ákvæði 5. mgr. 74. gr. bvl. og liggur því fyrir að hin kærða ákvörðun var ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera kröfu um.

Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar Barnaverndarnefndar B.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B frá 16. nóvember 2021 um umgengni D og E við A, er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar barnaverndarnefndarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum